ÞÖRUNGAEITRANIR

Útbreiðsla eitraðra svifþörungategunda og tíðni skaðlegra blóma af þeirra völdum virðist hafa aukist undanfarna áratugi. Menn eru ekki á eitt sáttir um hvað veldur. Sumir nefna aukna útbreiðslu eitraðra tegunda af mannavöldum, m.a. vegna aukinna skipaferða og lestunar og losunar kjölfestuvatns. Aðrir telja aukninguna stafa af því að aukið magn næringarefna berist til sjávar vegna mengunar af mannavöldum sem eykur vöxt þörunga. Enn aðrir telja einfaldlega að aukin þekking á þessu sviði og stóraukið eftirlit valdi því að við verðum oftar en áður vör við blóma skaðlegra þörunga. Þegar talað er um skelfiskeitrun hefur skelfiskurinn nærst á eitruðum svifþörungum og eitrið safnast fyrir í skelfiskinum án þess að hafa áhrif á hann en eituráhrifanna gætir aftur á móti hjá mönnum og öðrum spendýrum sem neyta eitraðs skelfisks. Um þessar mundir eru árlega skráð um 2000 tilfelli í heiminum þar sem eitraður skelfiskur veldur veikindum og er talið að um 15% þeirra sem veikjast deyi.

Aðallega er um að ræða þrenns konar eitrun sem menn þurfa að vera vakandi yfir í Norður-Atlantshafi:
PSP eitrun (paralytic shellfish poisoning). Áhrif PSP-eitrunar á spendýr eru í því fólgin að eitrið truflar natríumbúskap taugafruma, sem leiðir af sér truflun á taugaboðum og getur valdið lömun, öndunarerfiðleikum og jafnvel dauða.

Það eru skoruþörungar af ættkvíslunum Alexandrium , Pyrodinium og Gymnodinium sem valda PSP eitrun og hefur hún greinst úr skelfiski hér við land nokkrum sinnum

DSP eitrun (diarrhetic shellfish poisoning). Áhrif DSP-eitrunar eru ógleði, uppköst, þrautir í kviðarholi og niðurgangur og verður þeirra vart skömmu eftir að menn hafa neytt eitraðs skelfisks. Bati næst yfirleitt innan þriggja sólarhringa.

Það eru skoruþörungar af ættskvíslum Dinophysis og Prorocentrum sem geta valdið DSP-eitrun. DSP eitrun hefur greinst úr skelfiski við Ísland nokkrum sinnum.

ASP eitrun (amnesic shellfish poisoning). Áhrif ASP-eitrunar koma fram nokkrum dögum eftir að eitraðs skelfisks hefur verið neytt, en þau einkennast af ógleði og niðurgangi, minnisleysi og jafnvel dauða. Það eru staflaga kísilþörungar af ættkvíslinni Pseudo-nitzschia sem valda ASP-eitrun og stafar þessi eitrun m.a. af amínósýrunni “domoic sýru”. ASP-eitrun hefur ekki greinst hér við land svo óyggjandi sé, en tegundir Pseudo-nitzschia eru algengar við landið

 

Hafrannsóknastofnunin - wwwhafro.is -hafro@hafro.is - s: 5752000